sunnudagur, október 31, 2004

Hvítt peð á ceres fjóra, biskup drepur

Hauknum er efst í huga þessa daga hvernig heimurinn kemur til með að verða eftir næstkomandi þriðjudag. Eflaust eru einhverjir sem velta fyrir sér hví Haukurinn hefur valið þessa dagsetningu. Jú, því að þá verða nefnilega haldnar forsetakosningar í sameinuðum ríkjum ameríku. Útkoma þessara kosninga eiga eftir að hafa áhrif heiminn um kring, því að þegar þessi sljói bergrisi hnerrrar þá fá allir dvergarnir væna slummu í fésið.
Samskipti ameríku út á við hafa farið versnandi allt síðan tvöfalt vaff var settur í stól forseta fyrir tæpum fjórum árum. Margir fróðleiksmenn hafa séð þetta sem ákveðna anstæðnamyndun- polarisering - í heimsstjórnmálum, þar sem ameríkanar hafi loksins gert sér grein fyrir eigin yfirburðastöðu í heiminum og því ákveðið að þeir þyrftu ei lengur á hjálp eða ráðleggingum annarra að halda - að þar með töldum Sameinuðu Þjóðunum. Á meðan að Bretar virðast sáttir við það að mynda náið vináttusamband við þessa fyrri nýlendu sína eru samskipti BNA - bandaríkja norður ameríku - við restina af Evrópu á eilítið viðkvæmu stigi.
Evrópubúar, að Bretum meðtöldum, virðast líta á þessa valdamiklu þjóð sem einhverskonar stóran og ofursterkan mongólíta, einskonar King Kong í jakkafötum. Allur fréttaflutningur og umræða hérna megin við pollinn - Atlantshafið - virðist vera á þeim nótum að þetta séu ágætis grey sem langi í túnfiskinn en kunni engan veginn að opna dósina, þ.e. að þeir hafi hvorki þroska, kunnáttu né réttu samskiptahæfileikana til þess að ná settu marki.
Forsetakosningarnar hafa valdið því að fólk hefur fylkst í tvær andstæðar hreyfingar: þeir sem styðja sitjandi forseta og þeir sem styðja hann ekki. Frekar en að fólk endilega styðji John Kerry þá virðast flestir einungis vilja hann frekar en hinn valkostinn.
Sem valmöguleikar þá eru forsetaframbjóðendurnir eins ólíkir og olía og vatn. Þeirra persónur eru gjörólíkar, "tvöfalt vaff" er ofstækisfullur, hægri kristinn fyrrverandi alki og rauðháls á meðan John Kerry er stríðshetja, þingmaður og gulltyppi - þ.e. giftur erfingja Heinz miljónanna. Það eru hinsvegar ekki persónur þeirra sem Haukurinn hefur mest verið að velta fyrir sér, frekar þær fylkingar sem standa að baki þeim og hver þýðing þeirra er fyrir heiminn.
Utanríkisstefna sitjandi forseta BNA einkennist af því að vera fyrri til árásar, s.s. að berja gaurinn á götunni áður en að honum dettur í hug að berja þig. Þessi stefna er ekki vænleg til árangurs þegar maður lítur til þess að stærstu þjóðir heims, Kína og Indland, eiga eftir að breyta valdajafnvægi heimsins gífurlega á næstu áratugum. Erfitt er að sjá fyrir sér hvað eigi að gera við því ef að þessir dormandi risar ákveða að reiða til höggs gegn minnimáttar, því að þær alþjóðareglur sem myndast hafa síðustu fjögur ár leiða til þess að við því séu engin viðurlög, þ.e. þær skapa fordæmi sem erfitt er að víkja frá.
Haukurinn ber harm í hjarta en vonar hið besta. Það er ef að flórídafylki heldur ekki áfram að tapa atkvæðum.
Haukurinn hefur talað!