föstudagur, maí 11, 2007

Rússkí karamba...?

Haukurinn spyr sig í ljósi ósigurs gærkvöldsins hvort að einhver hafi í raun haft fulla trú á góðu gengi Eiríks rauða í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva? Er fólk ekki farið að sjá ákveðna þróun myndast í þessari keppni síðustu ár?

Innlimun fyrrverandi austantjaldslandanna hefur breytt dýnamíkinni í keppninni gífurlega, þar sem hinn ört vaxandi pan-slavismi virðist algerlega ráða ríkjum. En spurningin er sú hvort að það sé virkilega svo slæmt? Getum við þá ekki bara hætt að taka þátt? Eða hreinlega búið til okkar eigin keppni: Söngvakeppni Norrænna Sjónvarpsstöðva, þar sem við gætum endanlega lagt dana- og svíagrýlurnar til hvílu.
Hauknum finnst eins og íslenska þjóðin haldi ákveðnu dauðahaldi í þessa keppni sökum ört vaxandi vinsælda svokallaðra júróvisjónpartýa. Myndi nokkur heilvita maður horfa á þessa hörmung af söngvakeppni ef ekki væri fyrir þessa þrælslyndu venju? Ekki nokkur maður getur haldið því frammi við Haukinn að söngvararnir, lögin eða skemmtanagildið séu í hæsta gæðaflokki í þessu afstyrmi.
Haukurinn hefur einnig aðra kenningu varðandi vinsældir Eurovision á Íslandi. Hún er sú að keppnin virðist geta náð tangarhaldi í spotta ofsa-þjóðerniskenndar íslendinga og togað fast og lengi. Þetta er spurning um 'okkur' á móti 'þeim'. Öfugt við venjulega þá finnst okkur samt sem áður ekkert að því að halda með norrænum félögum okkar, og við væntumst þess sama af þeirra hálfu.

Það virkar svolítið út úr kú að heyra Big Red kvarta yfir austantjaldsmafíu á sama tíma og hann hvetur fólk til að kjósa þá fulltrúa norðurlanda sem enn eru eftir í keppninni - en hey....þetta snýst um 'okkur' á móti 'þeim'.....

Haukurinn hefur talað!

fimmtudagur, maí 10, 2007

"Tak'í nefið, tak'í nefið og svo snú þeir sér í hring...."


Haukurinn hefur lengi lofað fínkorna neftóbaks og loks hefur komið opinber staðfesting á kostum þess annarstaðar frá. Reykingamenn allra landa sameinist og drepið í dauðanöglum yðar. Fyrir þá sem enn finna til efa er ráðlagt að hlusta á lagið "Í nefið" eftir þá bræður Halla und Ladda, þar eð lagið er snilldarleg lofsræða um kosti neftóbaks. Koma svo....gerum eins og gamlir karlar gera í Nú skal segja....


Neftóbak drepur ekki fólk, krabbamein drepur fólk.


Haukurinn hefur talað!

miðvikudagur, maí 09, 2007


Ef Haukinn minnir rétt þá kom einnig upp ákveðin pattstaða varðandi hóp af sígaunum sem komu til landsins 2001. Þau gistu götur og garða borga og bæja, stálu sér til matar og betluðu skiptimynt af vegfarendum. Að endingu voru þau selflutt til Danmerkur með Norrænu, þar sem þau urðu vandamál danskra stjórnvalda. Hauknum finnst þetta snilldarlausn og mætti beita henni oftar þegar íslensk stjórnvöld lenda í vandamálum með erlenda ríkisborgara.

Hefði ekki verið hægt að minnka útgjöld til lögreglumála talsvert síðast liðin sumur með því að smeygja mótmælendum á austurlandi um borð í Norrænu? Það er hvort eð er ákveðin refsing fólgin í því að dúsa í daunillum dalli í nokkra daga úti á miðju atlantshafi. Svo geta Danir bara tekið við þeim og reddað málunum líkt og þeir gerðu á Nørrebro. Ætli þeir taki líka við eldri borgurum, öryrkjum og einstæðum mæðrum?

Ótrúlegt hvað það virðist alltaf koma íslendingum á óvart hvað fátækt fólk er tilbúið að gera sér til lífsviðurværis. Við erum of góðu vön - og ennfremur hraðgleymin, því fyrir u.þ.b. hundrað árum kúldruðumst við enn í torfhjöllum og átum fornhandrit.
Haukurinn hefur talað!

þriðjudagur, maí 08, 2007

"Every morning my children cry for Lýsi. Lýsi, Lýsi they scream...."


Umvafinn dúnmjúku velferðarkerfi Danmerkur og samfélagslegri jafnaðarhyggju, er erfitt að gera sér í hugarlund hvað taki við þegar haldið er heim aftur að námi loknu. Hvort það verður verra er ekki rétta spurningin, heldur hvort það verði ekki algerlega öðruvísi. Þau skipti sem maður heldur heim í stuttar heimsóknir verður maður ávallt jafn gáttaður yfir hamlausu lífsgæðakapphlaupi og ótakmarkaðri efnishyggju er einkennir íslenskt samfélag. Manni hreinlega hrís hugur við því að þurfa að halda heim aftur og hefja sitt líf og barnauppeldi. Maður spyr sig hvernig hægt sé að réttlæta "gildi" samfélagsins fyrir afkomendum sínum og hvort hægt verði að varna því að þeir koðni niður undar samfélagslegri pressu - hvað þá maður sjálfur.

Ennfremur veitir dvölin erlendis manni aukna innsýn í annað samfélagsform, þar sem þó betra sé haldið á spilunum á ákveðnum sviðum er samt sem áður víða pottur brotinn. Ótti frjálshyggjumanna um framtaksleysisaukandi áhrif hins gjöfula velferðarkerfis koma bersýnilega í ljós, þar sem inngróin rólegheit og skriffinnskulegar lönguvitleysur fara oft illa með íslenskar taugar. Þar að auki stendur maður sig oft að því að reyna að verja eigið samfélag þegar á það er ráðist. Þá víkja röksemdir hratt fyrir inngrónu þjóðarstolti.

Oft er haft á orði að glöggt sé gestsaugað þegar erlendir spámenn og spekúlantar sjá sér fært að sýna sig á skerinu í norðri og ausu úr brunnum visku sinnar með fjölmörgum athugasemdum sínum varðandi íslenskt samfélag. Íslendingar hafa löngum leitast eftir samþykki erlendis frá fyrir eigin tilveru, svona líkt og yngri systkini sækjast eftir slíku frá eldri systkinum, og það þrátt fyrir fullvissu okkur um eigin yfirburði - einkum með tilliti til höfðatölu. Þess vegna er oftast rætt við þá spekinga sem hafa allt gott að segja um Ísland og íslendinga - hinum er ekki veitt minnsta athygli. Maður gæti spurt sig, hvers vegna við sækjumst endalaust eftir þessu samþykki utanfrá þegar við erum alveg við það að springa í loft upp af þjóðarrembing og -stolti.

Þær kosningar sem framundan eru ættu að veita íslensku þjóðinni gott tækifæri til naflaskoðunar og til þess að taka ákvarðanir um hvernig framtíð íslensks þjóðfélags verði. Vissulega virðast velferðarmál endalaust lenda aftarlega á merinni (þau teljast seint flottasta stelpan á ballinu í íslenskum stjórnmálum), einkum núverið þegar umhverfismál og málefni innflytjenda eiga hug landans allan, en þó eru þau að mínu leyti alveg jafn mikilvæg.

Reynum að byggja upp samfélag sem við getum með vissu verið stolt af - og þurfum ekki að biðja alla aðra um að góðkenna.


Haukurinn hefur talað!

"Every morning my children cry for Lýsi. Lýsi, Lýsi they scream...."
Eggert Þorleifsson, Stuttur Frakki, 1993.
Haukurinn hyggst hafa þetta stutt og laggott að þessu sinni sökum anna. Fyrir þá lesendur sem ennþá hafa snefil af þolinmæði fyrir leti Hauksins getur Haukurinn glatt þá með þeim fregnum að Haukurinn finnst núorðið í tvöföldu upplagi, þar eð hann hefur hafið frekari bloggskrif á vefslóðinni http://www.haukurinn.blog.is/blog/haukurinn/.
Þar munu í framtíðinni birtast að mestu leyti sömu greinar og hér birtast, þó getur Haukurinn engu um það lofað að svo stöddu - enda lesendum vel kunnugt um sannleiksgildi loforða Hauksins.
Haukur biðlar til lesenda um að halda í trúna og þolinmæðina, og þakkar fyrri stundir. Einnig þætti Hauknum vænt um ef fólk væri óhrætt við að senda honum þær athugasemdir sem því dytti í hug hverju sinni - og þá auðvitað á báðum síðum.
Haukurinn hefur talað!