fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Ég er rangur maður, á röngum tíma, í vitlausu húsi.
Rangur maður, Sólstrandagæjarnir.
Forskrift: Eftir ábendingu frá yngri bróður Hauksins, var það fastslegið að Á Móti Sól hafði aðeins flutt lagið, en það var samið af ofangreindum gæjum. En samt sem áður, þegar allt kemur til alls, er eitthvað heitara í dag en ÁMS?? Í fullri alvöru? Magni Supernova frá Østre Borgó er hreinlega hetjan í dag.
Haukurinn er allt í einu orðinn svartur maður í landi hinna hvítu, hann er óhreint olnbogabarn og jafnvel lúsugur niðursetningur. Hraðvaxandi hagsæld hinnar kostulegu íslensku þjóðar og stigmagnandi auðssöfnun og uppkaup íslenskra kaupsýslumanna hafa gert Haukinn að meðlimi illa séðs minnihlutahóps hér í hinu danska konungsveldi. Íslendingar eru allt í einu farnir frá því að vera “nánast-danir” yfir í að vera “múslimar light”. Fréttir af peningaþvotti og öðrum fjármagnshúsverkum hafa stórskaðað álit Dana á þessum vinnualkóhólistum þarna í norðri – þó verður að taka það fram að líklegast á það einkum við þá þjóðfélagshópa hérlendis sem lesa Aukablaðið, og eru þeir vægast sagt ekki skörpustu hnífarnir í uppþvottavélinni.

Hauknum fannst það svoldið skondið, að þegar múhameðskrísan stóð sem hæst, þá sprönguðu Danir um miðausturlönd undir því yfirskini að þeir væru Íslendingar til þess að varna því að á þá yrði ráðist – eins gott fyrir þá hvað fáir múslimir stunda gamaldags Tyrkjarán nú á dögum.

Haukurinn fylgist með komandi kosningum í BNA með þó nokkurri áfergju. Hann hefur gaman af því að heyra af því sem gengur fyrir sig þarna vestan hafs, en slæmt þótti honum að John Kerry skildi biðjast afsökunar á þeim orðum sem hann lét út úr sér á dögunum. Þegar maður segir brandara, þá á maður ekki að þurfa að útskýra hann. Haukurinn hatar að þurfa að útskýra brandara og grunar að slíkt hið sama eigi við um Kerry. En þegar maður býr í landi þar sem hernaðariðnaðarblokkin samrekkjar með kristilegum ofstækismönnum er víst erfitt að tjá sig frjálslega – þó svo maður hafi lært það af ófáum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum (sem gert er að breiða út þessa meingölluðu veraldarsýn til heimsalmúgans) að þetta land sé heimabyggð málfrelsisins.

Ennfremur hváði Haukurinn við þegar hann las það á dögunum, að stjónvöld í BNA hvetja ungt fólk til að halda sig frá kynlífi þar til eftir giftingu. Hvers kyns stefnumótun er þetta? Nú lifum við á 21. öldinni, og það eina sem þeim dettur í hug til að stemma stigu við auknum kynsjúkdómum, alnæmistilfellum og unglingaþungunum er að segja fólki að halda sig frá kynlífi. Fyrir utan það hvað ofangreind stefna angar af kristilegri ofstækisfyrirhyggju, þá verður það að segjast að það er eitthvað ónotalegt við valdstjórn sem eyðir fé og tíma í slíkt og annað eins rugl. Kannski þeim væri nær að fá fólk til að leggja niður blessaðan beikon-ostborgarann og olíumarineruðu kartöflustangirnar. Hauknum er ekki skemmt.
Hauknum var þó skemmt þegar MUFC laut í lægra haldi fyrir FCK í Parken. Danska útgáfan af CSKA-Chelsea stóð sig sem skildi og stal stigunum af lærisveinum Massey Ferguson. Þegar innt var eftir ástæðum ósigursin var einungis ein gefin, vellinum var alfarið kennt um tapið - eða eins og forsets Ísalands myndi segja það: árinni kennir illur billjardspilari.
Haukurinn hefur talað!