föstudagur, mars 11, 2005

Hundar eru líka fólk....

Haukurinn var að velta því fyrir sér að láta lesendum eftir að ráða í fyrirsögnina en hefur ákveðið að skýra mál sitt. Þannig er mál með vexti að ókeypis bæjarblaðið - metróið fyrir þá sem hafa búið í stórborg - birti frétt í gær frá Íslandi. Þannig var að hundur einn tók upp á því að aka bíl eiganda síns út í höfn Eskifjarðar, æskustöðva Hauksins. Blessað greyið hefur líklegast náð að setja eitthvað í gang og því fór sem fór. Því miður þá fórst rattatið í þetta sinn. Blóm og kransar voru afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hins látna er bent á hundahlýðniskólann Gallerí Voff.
Haukurinn hefur oftar en ekki staðið sjálfan sig að því að hlæja að álíka fréttum annarsstaðar að úr heiminum. Í þetta sinn reyndi á þolrif Hauksins, þar sem Haukurinn er hvoru tveggja hundaeigandi og fyrrverandi íbúi staðarins sem um ræðir. Hauknum er eigi skemmt.
Spurningin sem margir hafa velt fyrir sér, er hvers vegna keyrði hundurinn út í sjó? Hvort að hann var þunglyndur, búinn að upplifa allt það sem hann vildi í lífinu eða hreinlega leiddist veit enginn. En það eitt er víst að í Eskifjarðarhöfn liggur hundurinn grafinn.
Haukurinn hefur talað!

fimmtudagur, mars 10, 2005

Hard at work or hardly working II - The return of the mack!
Haukurinn hefur aðeins verið að velta fyrir sér því sem hann skrifaði síðast um danska iðnaðarmenn og danskt vinnusiðferði. Haukurinn hefur fundið einn ljósan punkt, þ.e. eitthvað sem danir hafa umfram okkur íslendinga - nefnilega góða vegavinnumenn eða gott skipulagt þeirra öllu heldur.
Hver kannast ekki við það að aka eftir Hringbrautinni í áttina austur í bæ þegar maður ekur inn í miðjar vegaframkvæmdir, sem virðast birtast líkt og kristur birtist lærisveinunum forðum eða mamma hans ítölsku börnunum á sjöunda áratugnum. Þegar maður í gremju sinni fer að líta í kringum sig, þá sér maður einatt eitt stykki vegavinnuskilti 10-15 metrum frá sjálfum vegaframkvæmdunum sem lætur mann vita að framundan séu vegaframkvæmdir. Þar eð maður er sjálfur kominn inn í miðjar framkvæmdirnar þá er öllum ljóst að slíkar auglýsingar gera lítið gagn. Haukurinn hefur beyglað margt bílstýrið af þessum sökum.
Hér í Danmörku er öðruvísi gengið frá málum. Þar eð danska ríkið er stærsti atvinnuveitandi landsins (líkt og annarsstaðar í vestur-evrópu) og í kommúnunum dönsku eru auðsýnilega fullar kistur af peningum þá hafa danskir vegavinnumenn úr öðru að moða. Danskir vegir, og þá sérstaklega í bæjum og borgum, eru hreinlega undirlagðir af ýmiskonar skiltum og viðvörunum. Ökumenn er virðingarfyllst látnir vita af því að vegaframkvæmdir séu framundan allt að kílómeter eða tveimur gatnamótum í burtu. Fólki er ráðlagt að haga ferðum sínum öðruvísi og truflanir eru afsakaðar.
Þar eð Haukurinn er hjólreiðamaður mikill þá fer hann eigi varhluta af öllum þessum ljósa- og textaskiltum sem þægilega er komið fyrir á hjólastígum Álaborgar. En hann getur þó huggað sig við það að hann hafði þegar verið látinn vita á síðustu gatnamótum, með skilti sem varaði hjólreiðamenn við auknum óþægindum sökum skiltauppsetningar sökum vegaframkvæmda.
Haukurinn hefur talað!