föstudagur, desember 10, 2004

Jóladagatal Hauksins

10. desember

Haukurinn hefur ákveðið að velta tækninni fyrir sér í pistli dagsins. Þannig er nefnilega mál með vexti að hann hefur hvorutveggja grætt og tapað á tæknilegum framförum í dag.

Bókakostur Hauksins var aukinn til muna í dag. Þannig var að Haukurinn átti eftir að eignast tvær ansi vígalegar bækur, sem settar höfðu verið á lista yfir prófsefni fyrir próf hans 18. janúar. Samanreiknað söluverð þessara tveggja bóka eru tólf þúsund íslenskar nýkrónur, og þar með nokkuð utan við efni Hauksins. Haukurinn brá því á það ráð að fylgja ráðleggingum samnemenda sinna og halda til nálægrar ljósritunarstofu, í eigu manns frá landi múrsins mikla, Kína, og hreinlega ljósrita skræðurnar. Haukurinn gjörði slíkt hið sama og situr eftir með bækurnar tvær fyrir minna en fjórðung söluverðsins. Upplýstir lesendur eru eflaust meðvitaðir um þá staðreynd að ofangreind iðja er með öllu óheimil, og lagalega refsiverð, en Hauknum er sem stendur slétt sama – hann situr eftir með bækurnar.

Vefdagbók Hauksins líður skort í dag, sökum tæknilegra örðugleika á vefsíðu birtanda tíðra skrifa hans. Því sker Haukurinn við nögl í dag og lætur hér við sitja.

Haukurinn hefur talað!