fimmtudagur, desember 09, 2004

Jóladagatal Hauksins

9. desember

Haukurinn hefur enn einn daginn í köldum húsakynnum Álaborgar háskóla. Lífsgleði hópmeðlima fer þverrandi með hverjum degi sem líður. Dagarnir eru svo lengi að líða, eins og Svala Bó söng forðum, og enginn endi er sjáanlegur á vinnunni. Haukurinn reynir samt að láta stefnuleysið ekki draga úr sér sístígandi jólaskapið. Hópurinn hefur ákveðið að deila verkum fyrir helgina þar sem þungaða stúlkan finnur fyrir verkjum. Frumburðurinn er víst farinn að banka all hressilega á dyrnar og það boðar víst aðeins eitt - fæðing er á næsta leiti.
Svo er komið að Haukurinn er farinn að svipast um eftir jötu, myrru og reykelsum, og alveg við því búinn að hann ásamt hinum tveim hópmeðlimunum þurfi að setja sig í spor vitringanna þriggja. Aðeins er laust hlutverk Jóseps, svo að vitnað sé í lagið góða "...Ó, Jósep, Jósep bágt á ég að bíða og bráðum hvarma mína fylla tár". Samt eru það víst aðeins konur sem gráta, að því er Haukurinn hefur heyrt.
Undur og stórmerki, gallinn blettótti er orðinn einsleitur - þ.e. skjannahvítur. Haukurinn hefur verið bænheyrður.
Haukurinn hefur talað!