þriðjudagur, desember 07, 2004

Jóladagatal Hauksins

7. desember

Hvað er meira danskt en að mæta einstaklingi á hjóli rétt fyrir níu á þriðjudagsmorgni með Carlsberg Elefant í hendi? Slíkt hið sama varð nefnilega á vegi Hauksins í morgun, þegar hann hélt til hópavinnu. Þegar þangað var komið mætti honum aðeins ein manneskja úr hópnum, þar eð einum seinkaði sökum slælegra vinnubragða í lestasamgöngum og ófríska stúlkan í hópnum var byrjuð að fá einhverskonar hríðir. Hauknum brá ansi hressilega við, því að það þýddi að verkefnavinnunni yrði að flýta og breyta. Hinir þrír einstaklingar hópsins yrðu því að taka á sig meiri ábyrgð og vinnu, á meðan að enn væri óvíst um framhald meðgöngu stúlkunnar.

Ljóst er að meyjan ofannefnda stefnir hraðbyri á að eignast jólabarn, og eykur það óðum á hátíðarskap Hauksins. Því að hvað er meira “jóla” en fæðing lík sjálfr meyfæðingunni úr bókinni góðu? Því þó svo að boðskapurinn hafði misst eilítið marks í voru nútíma verslunarsamfélagi þá er hann enn góður og gildur ef maður meðtekur hann. Fæðingar, myrra og búfénaður eru eitthvað sem við sem “sannkristið” fólk þekkjum vel, en þrátt fyrir að Kókakólaismuð áhrif verslunarjólanna hafi hrykkt eitthvað í stoðum hátíðarinnar er flestum ljós tilurð og tilgangur hennar. Nefnilega, þar sem barn fæðist, þar eru jól.

Á þeim nótum skilur Haukurinn við lesendur sína með örlítilli hugvekju.

Haukurinn hefur talað!