mánudagur, desember 06, 2004

Jóladagatal Hauksins

6. desember

Haukurinn er kominn í örlitla tímaþröng. Rúmar tvær vikur til jóla og enn á hann margt eftir að gera. Verkefnaskil eru sett í byrjun janúarmánaðar og próf eru skipulögð í miðjum sama mánuði. Jólahátíðin hefur hafið að tapa fyrri áunnum glans, þar eð Haukurinn sér fram á að eyða höfuðhluta hátíðarinnar í lestur og námsgagnayfirferð.

Mamma er inni í eldhúsinu, eitthvað að fást við mat....Haukurinn inn’í herbergi situr alveg að lesa á sig gat. Jólalögin hljóma eilítið öðruvísi í höfði Hauksins í augnablikinu í ljósi ofannefndrar stefnu hátíðar. En söngur og gleði eru ennþá á borði Hauksins, þó í örlítið minna mæli en áður.

Karate gráðun lúrir einnig eins og skata handan við horn Hauksins, því 16. desember mun hann svitna, blóðgast og tárast í viðleitni sinni að halda rauðu belti sínu. Haukurinn hefur haldið bindindi sitt á gerjaða drykki hingað til, jafnvel þó svo að danirnir hafi markaðssett fjölmarga sérstaka jólabjóra. Haukurinn er stoltur af einurð sinni og er bjartsýnn á framhaldið.

Haukurinn hefur talað!