miðvikudagur, desember 08, 2004

Jóladagatal Hauksins

8. desember

Magnþrunginn miðvikudagur mætti Hauknum þegar hann renndi í hlað skólabyggingar sinnar við Strandveg. Ófríska meyjan var mætt aftur í skotgrafirnar, endurnærð eftir átök sín við frumburðinn og með bólgna ökkla.
Hópurinn tók til við að takast á við þá ókind sem verkefni þess er orðið. Skipulagður hafði verið krísufundur með námsleiðbeinanda þeim sem hópnum hefur verið skikkaður rétt eftir hádegisbil og því biðu allir þess óþreyjufullir að fá hjálparhönd. Námsleiðbeinandi þessi hafði eigi getað mætt fyrr sökum þess að hann hafði kvöldið áður haldið til hefðbundins jólafrókosts í Kaupmannahöfn - og því vant við látinn fram eftir degi. Biðin gerði fátt eitt annað en að auka á stress og vanmáttartilfinningar hópsins - og eigi bætti sjálfur fundurinn úr skák, því þar fór námsleiðbeinandinn hamförum og skaut viðleitni hópsins á bólakaf. En líkt og hirðarnir forðum, þó hræddir væru, þá fundu hópmeðlimir fögnuðinn í boðskap leiðbeinandans og endasentust af stað í leiðréttingaleit.
Haukurinn hélt örlítið ringlaður heim en þó eigi niðurbrotinn. Seinna um daginn fékk hann útrás fyrir fólsku sína með því að banka duglega í samnemendur sína í Karate. Þó var þar einn hængur á, því Haukurinn hafði rekið augun í þó nokkra blá bletti í skjannahvítum karategalla sínum og því góð ráð dýr. Haukurinn hefur hafið klórlagningu, ef guð og hinir lofa þá reddast málin.
Haukurinn hefur talað!