mánudagur, desember 20, 2004

Jóladagatal Hauksins

20. desember

Haukurinn er kominn heim. Vandinn er aðeins sá að hann á tvö heimili, og það sem hann skildi við sig bíður upp á ódýrari bjór. Haukurinn lét eftir sér og keypti sér ölskammtinn í formi Tuborg Julebryg. Haukurinn hafði frétt að hann væri uppseldur á skerinu og því tilvalið að mæta í hlaðið með eitthvað sem aðrir komast ekki yfir. Haukurinn keypti 6x6 bjóra á heilar 3400 íslenskar nýkrónur. 3400 krónur....!!! Haukurinn á ekki orð. Sambærileg innkaup í hinu konunglega danska ríki myndu kosta 120 danskar krónur, eða rétt um 1400 íslenskar krónur. Hvar er réttlætið?!? Haukurinn vill fara aftur heim.

Ferðalagið gekk ágætlega. Fjórir og hálfur tími fór í lestarferð - þar af svaf Haukurinn þrjá tíma - og svo var klukkutíma bið á Kastrup. Flugferðin tók þrjá tíma. Haukurinn svaf ekki en þar eð hann flaug með einokunarfyrirtækinu Flugleiðum, var flugið þægilegt og virtist mun styttra en flug með gripaflutningavélum Iceland Express. Haukurinn var ekki tekinn í tollinum. Heima við biðu hans flatkökur með hangiketi og kalt vatn með engu bragði eða kalki. Haukurinn vill vera heima.

Haukurinn hefur talað!