fimmtudagur, desember 23, 2004

Jóladagatal Hauksins

23. desember

Haukurinn fagnar degi Þorláks helga í dag að hefðbundnum sið. Skötulyktina leggur um húsakynni foreldra Hauksins og hlakkar Haukurinn mikið til komandi veislu. Foreldrar Hauksins tóku þá vanhugsuðu ákvörðun að breyta gólfi og eldhúsi húss síns fyrir jólin - þau hafa síðan ákveðið að ef að þeim skyldi detta slíkt í hug aftur þá er öðrum leyfilegt að ljá þeim einn kinnhest. Því hefur Haukurinn þeyttst um húsið eins og stormsveipur - eða útspýtt hundsskinn - og þrifið, tekið til og lagað síðustu daga. Haukurinn er orðinn eilítið lúinn en þó sáttur við eigin framtak.
Haukurinn fór síðla dags með bróður sínum að leita að jólagjöf fyrir heimilisdýrið. Dýraverslunareigandinn sem þeir fyrirfundu var vægast sagt örlítið sérstakur. Sá hinn sami virkaði eilítið "víraður" og reyktur en þó vænn. Dýrum dómi greiddu þeir bræður fyrir amerískan harðfisk og hundamintur - enda dýrið farið að lykta eins og hin versta sorptunna. Haukurinn er sáttur.
Haukurinn hefur talað!