þriðjudagur, maí 08, 2007

"Every morning my children cry for Lýsi. Lýsi, Lýsi they scream...."


Umvafinn dúnmjúku velferðarkerfi Danmerkur og samfélagslegri jafnaðarhyggju, er erfitt að gera sér í hugarlund hvað taki við þegar haldið er heim aftur að námi loknu. Hvort það verður verra er ekki rétta spurningin, heldur hvort það verði ekki algerlega öðruvísi. Þau skipti sem maður heldur heim í stuttar heimsóknir verður maður ávallt jafn gáttaður yfir hamlausu lífsgæðakapphlaupi og ótakmarkaðri efnishyggju er einkennir íslenskt samfélag. Manni hreinlega hrís hugur við því að þurfa að halda heim aftur og hefja sitt líf og barnauppeldi. Maður spyr sig hvernig hægt sé að réttlæta "gildi" samfélagsins fyrir afkomendum sínum og hvort hægt verði að varna því að þeir koðni niður undar samfélagslegri pressu - hvað þá maður sjálfur.

Ennfremur veitir dvölin erlendis manni aukna innsýn í annað samfélagsform, þar sem þó betra sé haldið á spilunum á ákveðnum sviðum er samt sem áður víða pottur brotinn. Ótti frjálshyggjumanna um framtaksleysisaukandi áhrif hins gjöfula velferðarkerfis koma bersýnilega í ljós, þar sem inngróin rólegheit og skriffinnskulegar lönguvitleysur fara oft illa með íslenskar taugar. Þar að auki stendur maður sig oft að því að reyna að verja eigið samfélag þegar á það er ráðist. Þá víkja röksemdir hratt fyrir inngrónu þjóðarstolti.

Oft er haft á orði að glöggt sé gestsaugað þegar erlendir spámenn og spekúlantar sjá sér fært að sýna sig á skerinu í norðri og ausu úr brunnum visku sinnar með fjölmörgum athugasemdum sínum varðandi íslenskt samfélag. Íslendingar hafa löngum leitast eftir samþykki erlendis frá fyrir eigin tilveru, svona líkt og yngri systkini sækjast eftir slíku frá eldri systkinum, og það þrátt fyrir fullvissu okkur um eigin yfirburði - einkum með tilliti til höfðatölu. Þess vegna er oftast rætt við þá spekinga sem hafa allt gott að segja um Ísland og íslendinga - hinum er ekki veitt minnsta athygli. Maður gæti spurt sig, hvers vegna við sækjumst endalaust eftir þessu samþykki utanfrá þegar við erum alveg við það að springa í loft upp af þjóðarrembing og -stolti.

Þær kosningar sem framundan eru ættu að veita íslensku þjóðinni gott tækifæri til naflaskoðunar og til þess að taka ákvarðanir um hvernig framtíð íslensks þjóðfélags verði. Vissulega virðast velferðarmál endalaust lenda aftarlega á merinni (þau teljast seint flottasta stelpan á ballinu í íslenskum stjórnmálum), einkum núverið þegar umhverfismál og málefni innflytjenda eiga hug landans allan, en þó eru þau að mínu leyti alveg jafn mikilvæg.

Reynum að byggja upp samfélag sem við getum með vissu verið stolt af - og þurfum ekki að biðja alla aðra um að góðkenna.


Haukurinn hefur talað!