miðvikudagur, maí 09, 2007


Ef Haukinn minnir rétt þá kom einnig upp ákveðin pattstaða varðandi hóp af sígaunum sem komu til landsins 2001. Þau gistu götur og garða borga og bæja, stálu sér til matar og betluðu skiptimynt af vegfarendum. Að endingu voru þau selflutt til Danmerkur með Norrænu, þar sem þau urðu vandamál danskra stjórnvalda. Hauknum finnst þetta snilldarlausn og mætti beita henni oftar þegar íslensk stjórnvöld lenda í vandamálum með erlenda ríkisborgara.

Hefði ekki verið hægt að minnka útgjöld til lögreglumála talsvert síðast liðin sumur með því að smeygja mótmælendum á austurlandi um borð í Norrænu? Það er hvort eð er ákveðin refsing fólgin í því að dúsa í daunillum dalli í nokkra daga úti á miðju atlantshafi. Svo geta Danir bara tekið við þeim og reddað málunum líkt og þeir gerðu á Nørrebro. Ætli þeir taki líka við eldri borgurum, öryrkjum og einstæðum mæðrum?

Ótrúlegt hvað það virðist alltaf koma íslendingum á óvart hvað fátækt fólk er tilbúið að gera sér til lífsviðurværis. Við erum of góðu vön - og ennfremur hraðgleymin, því fyrir u.þ.b. hundrað árum kúldruðumst við enn í torfhjöllum og átum fornhandrit.
Haukurinn hefur talað!