laugardagur, desember 04, 2004

Jóladagatal Hauksins

4. desember

Haukurinn byrjaði daginn í dag á því að halda galvaskur niður í miðbæ til jólagjafakaupa. Bærinn iðaði af lífi, verslun og jólastemmingu. Vandinn er aðeins sá að Haukurinn var hvorki að kaupa lífið, verslunina né jólastemminguna. Skapið fór æ versnandi og eftir rúman klukkutíma hafði Haukurinn fengið nóg – hreinlega allt fór í taugar hans. Gamli lírukassaspilarinn sem spilaði sama lagið í klukkutíma í senn; smekkfullu verslanirnar með kaupóðu mannmergðinni og veðrið, sem virtist ekki geta ákveðið hvort það væri haust eða vetur.

Hauknum var farið að líða eins og grátbólgnu smábarni í tapað-fundið deildinni í Kringlunni á Þorláksmessu. En viti menn, ektakvinnan tók stjórnina og rembdist eins og ljóshærð rjúpa við staur að róa Haukinn niður – sem á endanum tókst.

Einnig hjálpaði það Hauknum að Helgarfeðurnir hittu á hann með börnin í kerrum. Nýbúinn og Bóndinn sómuðu sig vel með heimasæturnar í vígalegum vögnum á gangi í miðbænum. Haukurinn vill gera lesendum það ljóst að kerlur þeirra hafa eigi yfirgefið, heldur voru þær mjög uppteknar við nám og því vant við látnar. Erfitt var fyrir Haukinn að stara í blá augu og rósrauðar kinnar dætranna og halda skapvonskunni gangandi og því batnaði skapið óðum.

Meðferðarkona sagði Hauknum einhverju sinni, að maður fengi fyrst aftur jólaskapið þegar maður eignaðist afkvæmi – maður endurlifði töfra jólanna í gegnum gleði barnanna. Haukurinn veit eigi hvort það er satt, en hitt veit hann að þessu sinni endurvakti það aftur tiltrú hans á mannkyninu – allvega um stund.
Haukurinn hefur talað!