þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Sykur, sykur, úúú hunang, hunang

Haukurinn er nýkominn heim úr stuttri helgarferð til Óðinsvéa. Eins og svo oft áður þá þótti best að velja lestarkerfið til ferðarinnar, þar sem það er áreiðanlegt, þægilegt og síðast en ekki síst ódýrt – sérstaklega þegar maður á eigi bílhræ til ferðarinnar. Lestarferðin sjálf var eins og oftast áður, þ.e. Haukurinn sat og last námsefni sitt og hafði gaman af. Það sem hinsvegar var öðruvísi við þessa ferð í samanburði við aðrar ferðir sem Haukurinn hefur farið innan Danmerkur, var það að helming ferðarinnar til Óðinsvéa sat við hlið Hauksins ung móðir með tvö börn. Það í sjálfu sér er eigi þess vert að minnast á það, heldur það að það fyrsta sem unga móðirin gjörði við innkomu var að rífa úr farteskinu tvo úttroðna poka af sælgæti og troða því í börnin – eða þau í sig sjálf ef rétt skal vera rétt. Þessu rúma kílógrammi af sykri skoluðu börnin svo samviskusamlega niður með velsykruðum gosdrykkjum.

Umskiptin sem þetta sykurmagn olli hjá börnunum voru slík að Hauknum varð um og ó. Stúlkan, sem líklegast var á þriðja ári, hoppaði, skríkti og lét öllum illum látum meðan bróðir hennar, líklega sjö vetra, settist niður með tölvuspil. Það sem Hauknum fannst ennþá merkilegra var sú magnaða staðreynd að eftir allt þetta reyndi móðirin að svæfa stúlkubarnið – upppumpað af sykri og orku. Hvað manneskjan var að hugsa vita aðeins æðri máttarvöld, en það hlýtur flestum að vera orðið ljóst eftir ótal samfélagsátök að sykur og börn blandast illa. Haukurinn veit það með sjálfan sig að eitt súkkulaðistykki getur haldið honum, nánast fullorðnum manni, gangandi tímunum saman.
Þess ber að geta að ofannefnd móðir var líklegast af kynslóð þeirri er kom á undan kynslóð Hauksins, og er sú kynslóð þekkt fyrir slæleg vinnubrögð.
Haukurinn hefur talað.