laugardagur, febrúar 28, 2004

Ísland best í heimi!

Haukurinn er stoltur Íslendingur. Hann er það, þó svo og jafn vel þeim mun meir um þessar mundir, þar eð hann býr sem stendur í mörk dananna. Það að búa erlendis ýtir undir þjóðarstoltið og í fyrsta sinn á stuttri ævi sinni hefur Haukurinn náð skilningi á öllum þeim fjölmörgu ættjarðarljóða og söngva sem hann hefur þurft að læra í gegnum tíðina. Þannig er nefnilega mál með vexti að flest þessara ofurþjóðerniskvæða voru einmitt samin af námsmönnum sem flutt höfðu af landi brott.

Hver kannast ekki við að hafa velt fyrir sér hví þessir menn voru einatt að væla og vola af sífelldum söknuði? Jú, þeir fluttu burt, flestir sökum þess að menntun var af skornum skammti heima fyrir og tækifærin fá. Öldrykkja þeirra og hórlífi virtist eigi ná að drepa algerlega minninguna um gamla landið og á endanum urðu þeir valdur að rómantísku stefnunni sem tröllreið hinum 'menntaða' vestræna heimi á 19. öld. Menn hópuðust saman í íslendingafjelög, stofnuðu sendirit og sömdu sorgarkvæði. Eins og flestir vita þá endaði öll þessi harmþrungna sorg með því að við stóðum uppi í hárinu á danska konungnum og börðumst fyrir því að fá að ráða okkur sjálf. Þar eð það gekk ekki í fyrstu tilraun, biðum við þar til Adolf gamli hafði hertekið dani, fengum stuðning frá könunum (í skiptum fyrir að gefa þeim pláss fyrir hernaðarlega mikilvæg landsvæði) og slitum öllu samstarfi. Skrítið að hugsa til þess að ef Hitler hefði ekki ákveðið að stofna þriðja ríkið þá værum við sennilega enn dönsk nýlenda.

Allavegna, það sem Haukurinn hefur einnig gert sér grein fyrir á síðustu misserum er það, að þegar maður stendur utan við það sem á sér stað á Íslandi þá virkar allt þetta eilífa tuð og streð hálf afkáralegt. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru Íslendingar ekki fleiri en rúm þrjú hundruð þúsunda, sem samsvarar rétt rúmlega stærð Árósa hér í danmörku. Að svo lítið land skuli geta staðið á eigin fótum, haldið uppi stjórnkerfi og varast landlægt hungur og almennan aumingjaskap er með öllu ótrúlegt. Þó svo að margt megi betur fara þá er lífið á Íslandi einstaklega ljúft og gott, og mættu lesendur sem staddir eru á 'skerinu' gera sér grein fyrir því fyrr frekar en síðar. Borðið ykkar kókó pöffs, ora baunir og lambakjöt, farið í heitan pott og gangið þið á fjall. Trúið því að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Mörk dananna býður kannski upp á massaódýrann bjór, mikið af svínakjöti og múslimapizza-stað á hverju horni en Haukurinn stendur fastur á því að þetta gras sé engann veginn grænna en það sem er ykkar meginn við bæjarlækinn.

Haukurinn hefur talað!