mánudagur, febrúar 23, 2004

Heitar íslenskar og þykkur hólmavíkurbæjari!

Haukurinn styrkist sí og æ í þeirri sannfæringu sinni að íbúar bandaríkja norður-ameríku séu bavíanar. Flestum er víst kunnugt um þær fregnir er bárust frá BNA að þingmenn ýmissa fylkja þar í landi hefðu sett fram frumvörp þess efnis að breyta nöfnum ýmissa matvæla og rétta er borið væri upp á þeirra heimabæ. Franskar hétu eigi "french fries" heldur "freedom fries", steikt eggjabrauð umverptist frá "french toast" yfir í "liberty toast" og fleira þar fram eftir götunum. Frakkar tóku þessum tíðindum með þeirri rósemd og því yfirlætisfulla yfirbragði sem einkennir þá annars ágætu þjóð. Þó svo að vilji þingmannanna vestanhafs hafi verið einlægur er víst að þessar tillögur þeirra til rótækra breytinga á mataræði innfæddra áttu ekki upp á pallborð hjá almenningi, því að eins og flestir vita þá þrá ameríkanar franskar meira en allt annað matarkyns og lái þeim hver sem vill - kvikindin eru jafn bragðgóð og þau eru fitandi.

Það kom því Hauknum í opna skjöldu þegar hann komst að því að þetta er eigi í fyrsta sinn er þessi kúvending er reynd. Þannig er mál með vexti að þegar fyrri heimsstyrjöldin var í fullum gangi og bræður börðust og að bönum urðust, þá ákváðu yfirvöld BNA að setja yrði lög sem hömluðu njósnir og það að hvetja til uppreisnar gegn ríkinu. Þar sem Þjóðverjar voru þá hinir illu eða "the enemy du-jour", þá hófst mikil herferð með það að markmiði að losna við öll áhrif þýskrar menningar í BNA. Í þessum aðgerðum fólst m.a. að losna við allar þýskar bókmenntir úr hillum bókasafna, banna börnum að læra þýska tungu, banna hinn þýska langhund af götum ýmissa borgar og síðast en ekki síst að endurskíra hamborgarann eilífa "liberty steak" í stað hins þýðverska heitis "hamburger" sem gaf til kynna tengsl hans við Hamburg.

Þar með er augljóst að 'bananar' (íbúar BNA) þurfa að taka ærlega til í eigin ranni. Fullljóst er þó að þeim verður það eigi auðvelt þar sem allir vilja síns böls blindir vera. Hægt væri að breyta hinu fornkveðna 'eins dauði er annars brauð' yfir í 'eins dauði er eigi annars frönsk kartafla' þannig að passaði við heim banananna.

Haukurinn hefur talað!