föstudagur, mars 11, 2005

Hundar eru líka fólk....

Haukurinn var að velta því fyrir sér að láta lesendum eftir að ráða í fyrirsögnina en hefur ákveðið að skýra mál sitt. Þannig er mál með vexti að ókeypis bæjarblaðið - metróið fyrir þá sem hafa búið í stórborg - birti frétt í gær frá Íslandi. Þannig var að hundur einn tók upp á því að aka bíl eiganda síns út í höfn Eskifjarðar, æskustöðva Hauksins. Blessað greyið hefur líklegast náð að setja eitthvað í gang og því fór sem fór. Því miður þá fórst rattatið í þetta sinn. Blóm og kransar voru afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hins látna er bent á hundahlýðniskólann Gallerí Voff.
Haukurinn hefur oftar en ekki staðið sjálfan sig að því að hlæja að álíka fréttum annarsstaðar að úr heiminum. Í þetta sinn reyndi á þolrif Hauksins, þar sem Haukurinn er hvoru tveggja hundaeigandi og fyrrverandi íbúi staðarins sem um ræðir. Hauknum er eigi skemmt.
Spurningin sem margir hafa velt fyrir sér, er hvers vegna keyrði hundurinn út í sjó? Hvort að hann var þunglyndur, búinn að upplifa allt það sem hann vildi í lífinu eða hreinlega leiddist veit enginn. En það eitt er víst að í Eskifjarðarhöfn liggur hundurinn grafinn.
Haukurinn hefur talað!