fimmtudagur, nóvember 28, 2002

Hvaða vitleysa?!?

Haukurinn er reiður. Honum fallast hendur í skaut. Haukurinn sat og átti í samræðum við góðan vin og lagskonu hans. Umræðan snérist um margt en tók að leita á vit kvikra mynda. Haukurinn tjáði téðum einstaklingum að hann hefði aðeins áhuga á að sjá tvær kvikar myndir í þar til gerðu kvikramyndahúsi, nefnilega söguna góðu um hófbitann og hringinn hans (LOTR II) og söguna af leyniþjónustumanninum Jónasi Bónda (James Bond) sem heitir í þetta skipti Deyðu annan dag - sem minnir Haukinn óneitanlega á heiti myndarinnar "Þegar skepnan deyr" því í Jónasi Bónda hljóta skepnur einnig að deyja!
Það sem veldur skapraunum Hauksins voru þær yfirlýsingar parsins að Jónas Bóndi væri eiginlega ekkert spennandi, hann væri frekar leiðinlegur og þreyttur - og því stæði vilji þeirra frekar til þess að sjá myndin um enska galdradrenginn Harald Pott. Við þetta fauk í Haukinn, Haukurinn fór hamförum líkt og fornir bardagamenn og tjáði þessum plebbum að Jónas Bóndi væri ALDREI óspennandi, leiðinlegur eða þreyttur. Haukurinn tjáði þeim aukinheldur að slíkt væri ekki hægt því hér væri ekki aðeins um kvika mynd að ræða, heldur stofnun! Þá komu mótrökin, Jónas kæmist alltaf upp með allt og þetta væri allt svo óraunverulegt! ÓRAUNVERULEGT!!!!

Haukurinn trúði þegar hér var komið við sögu ekki eigin eyrum! Þetta komandi frá pari sem tilbúið var að greiða peninga til þess að sjá kvika mynd um 14 ára strák sem getur flogið og galdrað! Hauknum flaug í huga hin fræknu ummæli útvarpsmannsins Sigurjóns Kjartanssonar, "það er ekki til neitt sem heitir "minn smekkur" það er bara til góður eða slæmur smekkur"! Sjaldan eru sönn orð of oft kveðin!

Haukurinn fylgist með knattspyrnu. Hann horfir á deild meistaranna. Það er góð skemmtun. Eftir að hafa horft á leik Nýjakastala og Innra Mílans komst Haukurinn að þeirri niðurstöðu að ítalskir knattspyrnumenn séu réttdræpir. Hauknum leiðast hrikalega hve suður-evrópumenn eru brögðóttir í knattspyrnu. Hauknum er spurn, ef hann myndi henda sér í gólfið og rúlla fimm hringi með dauðagrettu í andliti eftir að hafa fengið Hagkaupskerru í hælana, hvort að fólk myndi veita honum sömu aðhlynningu og bræðrum hans á knattspyrnuvellinum?!?

Haukurinn hló að fréttunum um "hryðjuverkamanninn" og "pólitíska fangann" Ástþór Magnússon. Ef það væri ekki fyrir hann og Hannes Hólmstein Gissurarson þá væri mjög svo leiðingjarnt að lifa á Íslandi í dag!!!

Haukurinn hefur talað!