þriðjudagur, nóvember 26, 2002

Zimm Zimma Pass Mí Ðe Kís Tú Mæ Bimma....!


Haukurinn situr kátur og hlýðir á meistara Beenie Man (Bauna Manninn). Hann er kátur svartur rímnasmiður sem kveður um tíkur og bifreiðar. Honum líður vel ef hann fær að keyra um á BMW og grípa í þéttholda kvenpening sem kætist ótæpilega við þessa tilburði Baunans. Haukurinn væri vel til í að lifa þessu lífi gleði og nautna - en nei hann þarf víst að fást við raunveruleikann og þjást og þroskast!

Haukurinn er eigi sáttur við þessa skipan mála. Honum var lofað frá byrjun af alls kyns auglýsingum að lífið væri ekkert svakalega erfitt, sjónvarpsþættir kynntu fyrir honum ýmsar manneskjur sem komust auðveldlega á toppinn og höfðu það gott. Líkt og Barði Pittur (Brad Pitt) sagði í Lemjuleikaklúbbnum (Fight Club) þá var okkar kynslóð alin upp og talin trú um það að allir gætu orðið milljónamæringar, kvikmyndastjörnur og rokktónlistarguðir - en yrðu það ekki og væru því grautfúlir.

Haukurinn heyrir lögin í tölvunni skiptast á í spilun, nú leika þeir félagar í Sigur Rós. Þeir eru í miklu uppáhaldi hjá Hauknum, því að í hans huga eru hverjir þeir sem tekst að telja milljónum manna trú um að upptökur af búrhveli að rúnka sér sé tónlist hljóti að vera hetjur. Ennfremur syngja þeir hvorki inná rúnkið á ensku, íslensku eða öðru þekktu tungumáli. Þeir syngja á bullensku! Ef þessir menn eru ekki grínistar aldarinnar þá er Haukurinn eitthvað að miseitthvað!

Haukurinn sá sama þátt og forseti Ísalands um hana Björk okkar. Skemmtilegur þáttur, en það sem sló Haukinn mest var yfirlýsing gömlu drottningarinnar Ella Jóns (Elton John) um kjól Bjarkar á Óskarsverðlaunahátíðinni. Honum fannst kjóllinn, sem var í líki svans, tær snilld og umfjöllun um hann í Bandaríkjunum bera þess skýrt merki að Bandaríkjamenn hafi engann skilning á kaldhæðni. Haukurinn klappar gömlu drottningunni lof í lófa fyrir þessi ummæli.

Haukurinn heyrir nú í sænsku gæðapoppurunum í Kent spila, en hann komst í tæri við þá á ný þegar hann dvaldist í Norðvegi og heyrði lög þeirra spiluð á frumtungunni, sænsku, á NRK P3. Þeir hljóma betur á sænsku en ensku - svona eins og Skímó og Land and Sons - "Vi liver som dom åndra....".

Haukurinn á að sitja við lærdóm en kýs að svíkjast um og skrifa blogg. Í Hauknum blundar nefnilega blogg-bók og ef einhver frá útgáfufyrirtæki er að lesa þetta þá hefur Haukurinn hugmynd að bók um dvöl sína í Norðvegi. "Sofnað á Sunndalsøra" heitir meistaraverkið - hey....ef Beta Blogg getur þetta þá er næsta víst að Haukurinn getur samið miklu mun betri bók, eee satt að segja!

Haukurinn hefur talað!