þriðjudagur, september 21, 2004

Landhögg, strandhögg og illir leikir!

Hauknum leiddist. Hann ákvað að skrifa blogg frekar heldur en að snúa sér að því að gjöra híbýli sín þessleg að foreldrar hans geti dvalið þar um stund. Annars ætti Haukurinn einnig að sitja fast við lærdóminn en eins og hann sagði áður, þá leiðist honum.

Danskir dagar

Eins og áður sagði eru foreldrar Hauksins á leið til Álaborgar. Þau eru sem stendur stödd í lest á leið í gegnum einhvern þeirra rassgatsbæja sem járnbrautin danska leggur leið sína um. Hauknum heyrðist á þeim að nafn bæjarins endaði á rup - svona eins og nafn eins af andaþríburunum úr Andabæ. Móðir Hauksins hafði á orði að eftir u.þ.b. tug mínútna væri maður orðinn þreyttur á landslaginu hérlendis; "sveitabær, sveitabær, kú, kú, tré, tré, múrsteinahús, múrsteinahús....endurtaka sama aftur". Haukurinn er hjartanlega sammála. Danir eiga kannski kaldann bjór á billegum prís en engin fjöll og fyrnindi. Ísland best í heimi!

Neyðarlegt niðurlag

Þrátt fyrir að hafa bundið miklar vonir við komandi leiktímabil hjá sínum mönnum frá borginni við Mersey á, þá varð Haukurinn fyrir miklum vonbrigðum með tilburði liðsins í leik gærdagsins við hina illu markaðsetningarmenn frá Manchester. Greinilegt er að spænska kryddið er ekki að setjast nægilega vel í drengina frá Liverpool og ill meltingin er auðsjáanleg. Þegar menn voru í vafa hvað skildi gjöra var dottið aftur á gamla taktík og boltanum neglt fram á við og keppst við að hitta í hausinn á nýja svarta manninum. Sá hinn sami virtist heillum horfinn og eigi allskostar sáttur við þjónustu miðjunnar.

Þó svo að hin síðari ár hafi varnarleikur verið aðalsmerki liðsins var það eigi sjáanlegt á leik liðsins í gær. Einfaldar markeringar virtust vefjast fyrir mönnum og olli það því að hinn franski Júdas náði að rekast í boltann tveim sinnum með þeim afleiðingum að hann endaði í netinu. Þrátt fyrir ágætist viðleitni frá stórsóknarmanninum írska O'shit þá urðu mörk Liverpool manna eigi fleiri að þessu sinni. Tsk, tsk, tsk. Sveiattan...!

Haukurinn hefur talað!

P.S. Í ljósi mikilla vinsælda mun Haukurinn halda áfram að spá í kosti og galla dýralífsins.

P.P.S. Hefur einhver velt því fyrir sér að öndum leiðist í hellum? Ekkert bergmál.....