fimmtudagur, september 27, 2007

Newfangled thingamajig...
Haukurinn vill bara benda lesendum á nýjustu útgáfu bloggsins: www.haukurinn.blog.is. Reynslan hefur sýnt að þar kemur oftar fram nýtt efni og því lesendur beðnir að taka það til sín.
Haukurinn hefur talað - að sinni!

miðvikudagur, september 19, 2007


Meistaradeildin hóf gang sinn að nýju í gærkveldi og Haukurinn var hreint út sagt sleginn yfir spili sinna manna. Svo virtist vera sem enginn þeirra væri hreinlega mættur til leiks, svo þeir mega glaðir vera að hafa náð að tryggja sér eitt stig miðað við frammistöðuna.

Haukurinn væri lygari ef hann bætti því ekki við að hann hafði lúmskt gaman af því að sjá CSKA Chelsea tryggja sér jafntefli á heimavelli á móti norska stórliðinu Rosenborg. Ætli það sé erfiðara fyrir Abramovich að tryggja sér 'heimadómara' í meistaradeildinni en í ensku deildinni?

Offita er eitt hraðast vaxandi heilbrigðisvandamál í hinum vestræna heimi, og Haukurinn hefur verið að velta fyrir sér þeirri umræðu sem hann hefur rekið augun í bæði í Danmörku sem og heima á Íslandi. Nýverið var birt viðtal við konu hérlendis sem var komin nægilega yfir þá skömm að eiga offeitt barn til þess að senda það á einhverskonar kommúnustyrkt léttingarnámskeið. Þar eð stúlkan hennar skammaðist sín einnig voru ekki birtar myndir af henni, heldur aðeins móður hennar að leik með fjölskylduhundinum.

Það sem Haukurinn rak einkum augun í, var sú staðreynd að móðir stúlkunnar var um 150 kíló og þéttholda eftir því, ásamt því að hundurinn var nokkrum sentimetrum frá því að reka þrekinn kviðinn í jörðina þar sem hann kjagaði andstuttur á eftir húsfreyju sinni. Hauknum finnst ákveðinn tvískinnungsháttur fólginn í því senda börnin sín í hreyfingu, íþróttir, megrunarnámskeið, osfrv. þegar maður situr sjálfur og hleður á sig aukakílóunum - einkum þegar það fellur á aðra skattgreiðendur að greiða ákveðin fyrrnefnd námskeið fyrir börnin.

Offita barna er orðið efni sem hefur fengið vaxandi umfjöllun í danskri samfélagsumræðu síðustu misseri. Hérlendis eru menn áfjáðir í að reyna allt til að sporna við þessari hraðvaxandi þróun. Rætt hefur verið að fella niður tolla á ávexti og grænmeti, sem og er ávallt verið að reyna fá dani til þess að eta meira af grófu brauði. Síðastnefnda atriðið kemur Hauknum spánskt fyrir sjónir, enda er fátt annað selt hérlendis en mismunandi útfærslur af harðkjarnabrauðmeti - sumt það gróft að það virkar eins og bakarinn hafi hreinlega límt saman ýmiskonar rúg- og hveitikjarna í brauðhleifsmynd.

Ennfremur eru danir áhyggjufullir yfir fréttum af yngsta einstaklingnum sem farið hefur í magahjáveituaðgerð hérlendis, en hann er 15 ára. Haukurinn er glaður að sjá að Íslendingar gefa dönum ekkert eftir og eiga allavega vinninginn í þessari norðulandakeppni.

Haukurinn hefur litla þolinmæði fyrir offitu - og þá einkum og sér í lagi offitu barna. Ábyrgðin fyrir offitu barna liggur öll hjá foreldrunum. Foreldrarnir eru þeir sem sjá almennt um matarinnkaup og matseld á heimilinu og því er það þeirra verk að halda mataræðinu heilbrigðu. Einnig er það í gegnum uppeldi sem börn eru kynnt fyrir mismunandi lífsmynstrum, þ.e. ef foreldrarnir neyta óheilbrigðs fæðis og hreyfa sig lítið er sterklega líklegt að börnin eigi eftir að temja sér sömu venjur. Hægt er að kvarta yfir tímaleysi, þreytu eða öðru álíka. En ef fólk hefur tíma til þess að hringja og bíða eftir flatböku getur það á sama tíma einnig soðið fisk og kartöflur - hvort ætli sé dýrara?

fimmtudagur, september 13, 2007


Haukurinn hefur síðustu dægur verið að velta fyrir sér þeim áhrifum sem hin margumtalaða kynlífsbylting hefur haft á almenna dægurmenningu í hinum vestræna heimi. Flestir hafa hampað téðri byltingu sem verandi af hinu góða, þar sem frelsi einstaklingsins hefur verið aukið til að betrumbæta eigið kynlíf, skapa umræðu um kynferðismál og þar með uppræta ýmsar ranghugmyndir og kreddur sem tengdar eru kynferðismálum.

Samhliða þessu hefur kynlífsbyltingin, að mati Hauksins, haft í för með sér ákveðna kynferðisvæðingu hins dags daglega lífs. Á hverjum degi dynja á okkur kynferðislega tengdar ímyndir, hvort eð er í textum dægurlaga eða myndum auglýsinga. Haukinn rekur minni til bæklings frá Smáralind sem olli þónokkru fjaðrafoki í umræðunni á Íslandi fyrir stuttu, þar sem einmitt stóð styr um hvort auglýsing þar í væri of kynferðisleg eður eigi.

Haukurinn gerir sér ljóst að þessi umræða er vandmeðfarin sem og byggir á gömlum grunni. Sést það best á því að löngu áður en Al Gore gerði sér grein fyrir illum áhrifum gróðurhúsaáhrifanna stóð kona hans í þó nokkru stappi við það að sýna fram á óheilbrigði dægurlagatexta um miðjan níunda áratuginn. Listamenn þess tíma þurftu að fara fyrir alríkisnefnd og bera vitni um eigin textasmíð. Ennfremur fékk fólk fyrir hjartað þegar Elvis skók mjaðmirnar eða þegar Bítlarnir sungu um að halda í hendur ungmeyja.

Það sem einkum kveikti á áhuga Hauksins á að tjá sig um þetta efni var dálkur í metroexpressen. Þar ræddi áhyggjufull móðir tíu ára stúlku hverskyns áhrif það hefði á framtíðarvonir dóttur hennar að hrærast um í menningu þar sem Kisulórudúkkurnar hampa því að best sé að hoppa um á nærfötunum og syngja um hvort þær séu ekki miklu betri kostur en núverandi unnustur hlustenda. Haukinn rekur minni til grínista sem sagði að öll þessi sjálfshjálp og uppbygging á heilbrigðum manneskjum væri ekki endilega af hinu góða, því hvaðan myndu allir strippararnir sem dælduðu sjálfsímyndina og föðurvandamálin þá koma?

Þegar kostir og gallar kynferðisvæðingar eru metnir, verður einkum erfitt að sjá hina augljósu kosti þessa fyrir börn og unglinga. Þessir einstaklingar standa frammi fyrir mjög mótandi áhrifum sem hafa áhrif á hver þau eru, verða og hvernig þau hafa áhrif á umhverfið í kring. Sum áhrifin eru áberandi, t.d. skonsuskot af Paris, Britney, Lindsey og hvað þær nú heita, á meðan önnur eru hreinlega hálfdulin, t.d. Bratz dúkkur sem íklæddar mínípilsum og ríðuhælum eyða öllum sínum stundum í vangaveltur um verslunarferðir og strákahjal. Mikil aukning sjálfsmorða og átraskanna ætti að vera vísbending um yfirvofandi vandræði.

Við verðum hreinlega að gera okkur grein fyrir þeim áhrifum sem þessir umhverfisþættir hafa á ímynd barna og unglinga. Hvort eð eru fáklæddar ungmeyjar í auglýsingum, vart-klæddar ungmeyjar í tónlistarmyndböndum eða Litli Jón að kyrja "Pop yo pussy on the pole do yo thang baby...to the sweat drop down my balls..."

Haukurinn er ánægður að vera ekki að ala upp stúlku....

föstudagur, júní 15, 2007


Greinilegt að menn eru hættir á Atkins- og South Beach-kúrnum. Frekar augljóst að Tyson-kúrinn er að gera sína innreið í íslenskt þjóðfélag og kúramenningu.

Góði dátinn Svejk hefði aldrei sætt sig við þessa meðferð.....nú mega íslenskir bitvargar fara að vara sig....

Haukurinn hefur talað!

mánudagur, júní 04, 2007

Fátt annað kemst að í fréttaflutningi hér í Danmörku en stormandi áhlaup eins áhorfandans á Parken á dómara leiksins milli Dana og erkifjendanna frá Svíþjóð. Hreint út sagt allir sem eitthvað tengjast annaðhvort dómgæslu, knattspyrnu, ofbeldi eða áhangendaklúbbum hafa fengið að tjá sig um atvikið. Menn eru hreint út sagt slegnir út af laginu og vita ekkert hvert framhald málsins verður.

Danskir áhorfendur þykja þekktir um víða veröld fyrir rólegt lyndi og glaðlegheit, og því eru danir vægast sagt felmtri slegnir yfir atburðum helgarinnar. Haukurinn tekur þessum fréttum af yfirvegaðri værð og spyr sig fremur hversu slæm öryggisgæslan sé á Parken fyrst þessi sófakartöflukarl náði að kjaga inn á völlinn fram hjá öryggisvörðum - og það í vægast sagt annarlegu ástandi. Umræddur bumbuárásarmaður hefur farið huldu höfði, enda óttast hann um líf sitt og limi í ljósi stigmagnandi reiði meðal knattspyrnuáhugamanna hérlendis. Líkt og við var að búast, þá kennir hann áfengisneyslu um þar eð hann hafi drukkið milli 15-20 bjóra og muni vart eftir árásinni. Núna kemst hann ekki heim til sín að ná í fatnað og vistir þar sem hópar fólks fylgjast grannt með húsi hans.
Oft hefur verið haldið frammi í ákveðnu háði að þessi margrómaða "ligeglad" hegðun dana sé mikilli öldrykkju að þakka. Það er allt gott og blessað en augljóst að ölþjór er tvíeggjað sverð. Ætli uppbyggt þjóðernisstolt gagnvart Svíum, drykkja og gremja yfir leiknum hafi ekki hvert átt sinn þátt í áhlaupinu á dómarann þýðverska?
Spurning hvort að það hefði ekki bara verið ágætt ef einhver hefði hlaupið inná Laugardalsvöll og hótað dómaranum í leik Íslendinga og Langtíburtistana frekar en að sætta sig við jafntefli? Eru ekki til nógu margir massahnakkar frá Selfossi með særða sjálfsmynd og öl í blóðinu til þess að gera skandal?
Haukurinn hefur talað!

mánudagur, maí 21, 2007


Væri ljótt að mæta til hinna grænu friðunga með sojasósu, wasabí og súrsaðan engifer? Þau virðast allavega hafa vit á því að geyma matinn kældann.....

Er ljótt að verða svangur við það að lesa þessa frétt?

Haukurinn hefur talað!

þriðjudagur, maí 15, 2007

Er þetta framtíðin í framkvæmdum á Íslandi? Á sem sagt virkilega að halda því fram að verktakar ljúgi um fyrirætlaðar framkvæmdir og blekki nálæga íbúa? Eru menn ekki farnir að reyna allt þegar þeir vilja meina að logið sé til um tilgang framkvæmda?

Hvað hafa Varmársamtökin því til stuðnings að nauðsyn krefji að kalla þurfi til lögreglu? "Þeir eru bara að plata herra lögregluþjónn.....um leið og þið farið aftur upp á stöð þá byrja þeir aftur á tengibrautinni...."
Ef samtökin hafa hinsvegar rétt fyrir sér þá er augljóslega um grófa valdníðslu að ræða - eða hreinlega nýsköpun í fyrirkomulagi og skipulagningu framkvæmda á Íslandi.

Samt minnir Haukinn að yfirlýstir mótmælendur virkjana á Austurlandi hafi haldið því fram að þau væru aðeins í bakpokaferðalagi yfir hálendið og um austfirði - þó svo túrinn virtist innihalda að þau færu að klifra í krönum og hlekkja vinnuvélar.
Haukurinn hefur talað!