fimmtudagur, febrúar 12, 2004

Ég berst á fáki fráum, fram um veg....

Haukurinn er aldeilis sniðugur þegar kemur að peningamálum þessa dagana. Hann hefur geymt það að eyða peningum síðustu vikurnar, einkum vegna þessa seinagangs sem einkennir LÍN, og hefur haldið í við sig þegar að fjárútlátum hefur komið. Nú er hins vegar öldin önnur því lánið er loksins komið til skila.

Haukurinn gjörðist djarfur og byrjaði á því að kaupa sér hluta námsbókmennta þeirra sem þegar er hafin kennsla úr. Haukurinn lét eigi þar við sitja og hélt vaskur á reiðhjólauppboð ásamt Kanínubóndanum og keypti hreint öldungis fínt reiðhjól á 50 kr danskar. Gripurinn var reyndar læstur, þar eð um lögreglu uppboð var að ræða, og voru því leigðir til lásabrots nokkrir galvaskir danir á reiðhjólaverkstæðinu í hverfinu. Þeir hafa lofað því að Haukurinn geti sótt fákinn opinn og ólæstann um hádegi á morgun, því er eigi von að Haukurinn sofni auðveldlega í kveld sökum spennu.

Haukurinn sér fram á góða tíð með blóm í haga, þar sem hann er eigi lengur fangi strætisvagnakerfis Álaborgar. Það þykir honum boða gott þar eð strætisvagnabílstjórarar hafa tekið upp á því að fara í verkföll í tíð og ótíma. Eitt slíkt átti sér stað í morgun og stóð yfir í tvo tíma. Pólverjinn, bekkjarfélagi Hauksins, skildi ekki bofs í svoleiðis vinnubrögðum og sagði að ef menn færu á annað borð í verkfall í Póllandi þá stæðu þau yfirleitt yfir í viku - sem sagt 'keppnis' verkföll þar á bæ.

Haukurinn hlakkar til hjólreiðaferða þeirra er hann sér fram á, fákurinn færir frelsinu nýja vídd og aukna möguleika. Heill sé þeim er lét sér detta þvílík snilld í hug!

Haukurinn hefur talað!