sunnudagur, febrúar 08, 2004

Strítfætinmen!

Bræður munu berjast
og að bönum verðast,
munu systrungar
sifjum spilla;
hart er í heimi,
hórdómur mikill,
skeggöld, skálmöld,
skildir eru klofnir,
vindöld, vargöld,
áður veröld steypist,
mun engi maður
öðrum þyrma.


Haukurinn ákvað að láta þetta kvæði úr völuspá fylgja með pistli dagsins, þar eð það á vel við atburði gærkveldsins - hvorutveggjainnihaldið og orðalagið. Haukurinn fór nefnilega á þorrablót difn og var þar margt um manninn. Byrjað var á skemmtisögum, vísum og gamanatriðum þar sem spekúleraður var raunveruleiki tilveru námsmanna í danmörku og höfðu menn mikið gaman af. Síðan var tekið til við að gæða sér á kræsingum frá heimalandinu sem dönsk yfirvöld höfðu góðfúslega leyft aumlegum íslendingunum að flytja inn til blótsins. Súrmetið var hið ágætasta þó Haukurinn hefði kosið að það væri örlítið súrara en gott var það samt. Að loknum veitingum var borðum ýtt út í horn og hljómsveitin Sixtís steig á stokk. Þeir spiluðu undir dansi og tókst þeim ágætlega til, þó svo að Haukurinn sé kominn með eilitla leið á Best of Geirmundur Valtýsson og Stuðmenn.

Skemmtunin var í hámarki og stóð Haukurinn úti við að fá sér hreint loft þegar hann hafði veður af því að Landsbyggðarböllurinn væri í vandræðum með einhvern landa sinn. Haukurinn skundaði af stað til þess að athuga á hverju stæði og hvort að hann gæti veitt félaga sínum björg. Þegar komið var á staðinn stóð Landsbyggðarböllurinn í heitum umræðum við nokkra menn ásamt Jöste frænda sínum. Haukurinn gekk nær og komst að því að öllum látum var lokið og hér stæðu menn aðeins í því að fullvissa hvern annan að allir væru hinir rólegustu. Landsbyggðarböllurinn, sem eins og langflestir vita er allra manna síðastur til vandræða, var löngu orðinn rólegur og var aðeins að reyna að komast að því hvað hefði átt sér stað. Eftir því sem Haukurinn komst næst þá var Landsbyggðarböllurinn sleginn í andlitið af öngvri ástæðu og hafði víst náð að svara fyrir sig að einhverju leiti áður en fram stigu þrjár tigu hetja sem vildu stíga í milli. Áður en menn vissu hvaðan á sér stæði veðrið hafði árásarmanninum verið komið í burtu og menn komnir í hlutverk hins góðkunna Dr. Phil, þ.e. að leika sálfræðing. Allir vildu rökræða atburði fram og til baka og helst af öllu róa Landsbyggðarböllinn niður, þó svo að engin þörf væri á því þar eð hann var orðinn algerlega pollrólegur.

Upp úr þessu hurfu skemmtilegheit blótsins eins og dögg fyrir sólu og fóru menn að skipuleggja heimferð. Morguninn eftir hafði Haukurinn síðan veður af því að misyndismaðurinn sem ráðist hafði á Landsbyggðarböllinn hafði einnig sparkað í höfuð dömu sem var að lagfæra skóþveng sinn sama kveld - sem sagt hinn mesti prins á meðal manna hér á ferð. Haukurinn telur það víst að sá hinn sami verði ekki viðstaddur fleirri skemmtanir á vegum difn í framtíðinni.

Haukurinn fór að velta því fyrir sér hvort einhver tenging gæti verið á milli þessa atburðar og hópslagsmála þeirra sem Svansson var vitni að sama kveld. Haukurinn fór að athuga málið og komst að því að líklegast væri hér um gamaldags lúnasíu að ræða. Þannig er nefnilega mál með vexti að tunglið var fullt þetta kveld og augljóst að aðdráttarafl þess hefur togað illilega í vökva þann er umlykur heila þessara manna, þar eð heili þeirra hlítur að vera minni en venjulegs fólks þá er fyllt upp með meira vatni. Meira vatn = meiri áhrif. Haukurinn hefur hér með sannað áhrif tunglsins á minni menn. Q.E.D.

Haukurinn hefur talað!