föstudagur, maí 20, 2005

Evrópóstur

Haukurinn er eilítið vonsvikinn hér í morgunsárið. Tilfinningin er eilítið álíka og þegar Danir komust yfir á móti Íslendingum í Parken hér um árið, en samt þó nokkuð vægari. Austur-Evrópskasöngvakeppnin fór fram í gærkveld, og líkt og flestum er líklegast ljóst þá sat Selma 'okkar' eftir með sárt ennið. Vanalega þá færu slíkar fréttir algerlega fram hjá Hauknum, en í annað skipti á ævinni hafði Haukurinn haft fyrir því að setja sig inn í keppnina að þessu sinni, og úr varð að landar hans komust ekki einu sinni með á stóra sviðið. Haukurinn sér eftir þeim tíma sem fór í það að meta lögin í keppninni, einkum vegna þess að sú tónlist sem flutt er á þessum samevrópska vettvangi er engan veginn eftir tónlistarsmekk Hauksins.

Haukurinn hafði setið yfir samnorræna skemmtiþættinum, þar sem m.a. Eiríkur Hauksson fór hamförum í dómum og stigagjöfum. Eins skemmtilegt og það var að sjá norðurlandabúa klappa hver öðrum á bakið, þá var megintilgangurinn sá að meta lögin sem þátt tóku í gær og sem taka þátt síðar á laugardag. Hauknum finnst eigi að hann hafi haft erindi sem erfiði, og finnst hann hafa spillt tíð við það að gjó lostafullum augum til Karlottu hinnar sænsku eða við það að hlæja kumpánlega yfir syngjandi norskum húmor, hvort sem var frá eiginlegum norðmanni og íslenskum norðmanni.

Haukurinn skemmti sér samt sem áður við það í gærkveldi að meta söngkonur eftir heitleika og einnig yfir Kissblandaðri Europe stemmingu frá norska framlaginu. Haukurinn vonar innilega að norðmennirnir beri sigur úr býtum. Þeir eru hvort eð er afkomendur þeirra af forfeðrum okkar sem viljugir voru að greiða skatta - þeir eiga inni stuðning okkar.

Haukurinn hefur talað!