þriðjudagur, október 05, 2004

Kaupin á eyrinni

Haukurinn heldur ennþá áfram að etja kappi við bóndann á Garði. Þannig er mál með vexti að báðir eru eitilharðir hjólhestaáhugamenn og sem stendur eru þeir báðir að koma sér upp ágætis stofni af ýmiskonar hjólhestum. Eigi stendur þeim fyrir dyrum hvar þeir mega nálgast gripina en samt verður að segjast að best er ef að þeir greiða fyrir þá með peningum eða þjónustu.

Hjólakaup

Haukurinn lét loksins af því verða og keypti hjól handa sinni ektakvindu. Eigi þarf hún lengur að dröslast um götur Álaborgar á "Gullna Skraninu" sem að fyrir löngu var búið að gefa upp öndina. Hefur hún nú fengið í hendur bláan fák, mikið skreyttann brettum og öllum öðrum aukahlutum og lætur spúsa vel af gripnum. Haukurinn fékk vel metna hjálp frá Bóndanum á Garði og Nýbúanum Hvíta. Þessir öðlingar fylgdu Hauknum út í sveit þar sem hægt var að nálgast fákinn bláa á góðu tilboði - eða til billig pris eins og menn segja einatt hérlendis.

Kvæðakrossvending

Sögumaðurinn knái hefur undið kvæði sín í kross og haldið til Orkneyja. Þar hyggst hann nema sagnafræði mikil, sem hann þó viðurkenndi að færu mestan partinn fram á öldurhúsum og krám. Síðar mun hann segja sögur, sér og öðrum til mikillar gleði, og mun víst einnig létta ýmsum útlendum ferðalöngum stundirnar heima á Íslandi þegar fram líða stundir. Haukurinn óskar sögumanninum alls hins besta og vonar að á endanum verði úr þessu ævintýri hin besta saga - sem þá væri hægt að segja Hauknum yfir kaldri kollu eða svo.....

Ferðalög sjúklinga

Haukurinn boðar heimkomu sína til Íslands hinn tuttugasta desember. Þar hyggst hann dveljast allt fram til hins fjórða dags janúarmánaðar en mun síðan snúa aftur til námsborgar sinnar. Þar sem að Haukurinn var að þessu sinni fyrr á ferð en oft áður að panta farið, tókst honum að festa sér för með hinu illa stórveldi Flugleiða. Satt best að segja hlakkar Haukurinn til þess að þurfa ekki lengur að sitja í sardínudós lágfluggjaldafélagsins Iceland Express. Haukurinn grunar stjórnendur Iceland Express um að smyrja ganga og sæti véla sinna með sméri til þess eins að eiga möguleika á því að troða fólki af eðlilegri stærð inn í vélar sínar. Þröngt mega sáttir sitja - en fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Haukurinn fékk farið heim og tilbaka á sama verði og hann hefði greitt fyrir hjá lággjaldaflugfélaginu - en fær mat, skemmtun og þægindi í kaupbæti. Haukurinn unir sáttur við sitt.

Heimaverkefni

Haukurinn vill hvetja lesendur sína til þess að reyna við eftirfarandi verkefni. Haukurinn lét sér detta í hug í ljósi þess að hann hefur haft mikil samskipti við Votta Jehóva, hvort að ekki væri tími tilkominn að einhver mætti heim til þeirra og boðaði þeim eitthvað. Væri ekki fínt að mæta í kirkju þeirra og boða þeim svall og svínarí?
Haukurinn bíður spenntur eftir því að heyra frekar sögur....

Haukurinn hefur talað!

P.S. Er líka sílíkon í dýraklámi....?