mánudagur, ágúst 30, 2004

Haukurinn er lentur!

Haukurinn hefur snúið aftur og hefur enn á ný hafið skrif. Haukurinn var eins og lesendum er kunnugt staddur heima á Íslandi í sumar og því lítið um pósta af þeim sökum. Sumarið var fullt af upplifunum og mun Haukurinn rekja þær í komandi póstum.

Margt hefur breyst í sumar, einhverjir eru giftir, aðrir sáu æskuátrúnaðargoðin á sviði og enn aðrir skiptu um nám. Haukurinn viðurkennir að tvennt af þessu á við hann en eigi allt. Lesendum er boðið að geta í eyðurnar.

Enn fjölgar hér í borginni við Limafjörðinn, þar sem Kristmundur Kvíti, heitkona hans Halla og frumburðurinn hafa lagt land undir flug og fluttst búferlum hingað. Þessa hefur verið beðið með óþreyju og stefnir í spennandi tíma í framtíðinni.

Haukurinn hefur ennþá ekkert heyrt af pólska fylgifisknum sínum og nýtur því enn sem komið er kyrrðar og sælu.

Haukurinn saknar hins vegar gæludýrsins sem hann skildi eftir á landinu kalda, nefnilega hundsins Kols. Sá heitir eftir Kol Þorsteinssyni, þræls Ingólfs, sem átti mikið og gott sverð. Og svo er hundkvikindið líka svart þannig að.....en hér einhvers staðar sést mynd af gerpinu.

Haukurinn hefur talað!