föstudagur, september 03, 2004

Sumar-sögur

Haukurinn brasaði margt og mikið í byrjun sumars og sannarlega sögur frá að segja. Til þess að gera lesendum auðvelt fyrir þá verða liðirnir sundurliðaðir og munu hafa skýrar fyrirsagnir. En þar sem Haukurinn fékk einnig að heyra það að hann ætti það til að láta gamminn geysa eilítið um of þá mun hann keppast við að vera skorinortur.

Brúðkaup skötuhjúanna af Garði

Það er rétt! Þau eru komin af markaðinum! Í Júlí mánuði hnýttu hjúin hnút sem verður eigi auðveldlega leystur. Enginn meiri hórdómur og engir fleiri bastarðir. Þökk sé guði almáttugum þá hefur allt þeirra samband verið helgað og því groddaskapurinn á bak og burt. Sjálfum finndist Hauknum missir af því að geta eigi eignast fleiri bastarði því honum finnst það hljóma vel. Hvern myndi eigi langa að geta titlað sjálfan sig sem "Bastarð", líkt og Vilhjálmur Bastarður eða því um líkt.

Veislan var svakaleg. Menn tóku vel á öli, víni og veigum og átu, drukku og voru glaðir. Eilítill hundur kom í menn síðla kvelds og því var veislu slitið. Haukurinn skemmti sér konunglega.

Graðhestatónleikar með SS-pylsuætunum

Haukurinn hafði beðið þessarar stundar síðan hann fyrst fékk að hlýða á tónlist hljómsveitarinnar Metallica. Loksins, loksins! Haukurinn skellti sér á tónleika hljómsveitarinnar í júlímánuði sem haldnir voru í geimskipinu sem nefnt er Egilshöll. Þvílík snilld! Drengirnir fóru á kostum og renndu í gegnum safn laga sinna. Haukurinn fór þokkalega sáttur af vettvangi.

Sumarvín

Haukurinn ætlar aldrei, aldrei, aldrei aftur að vinna hjá Ísbirninum, sem er betur þekktur sem ÁVTR. Íslendingar eru fífl. Skattar eru háir, laun eru lág og vín er dýrt. Haukurinn er með sár á sálinni.

Lokaorð

Haukurinn átti á heildina litið gott sumar heima á Fróni. Ef lesendur vilja frekari sögur þá verða þeir að óska þess sérlega við skríbentinn.

Haukurinn hefur talað!