þriðjudagur, mars 07, 2006

"I just want you to know that, when we talk about war, we're really talking about peace." — George H.W. Bush, Washington, D.C. June 18, 2002

Haukurinn er kátur. Heimurinn virðist vera að ná sér aftur eftir að danskar teiknimyndir höfðu hleypt öllu í bál og brand - eða allavega danskir fjölmiðlar. Danir eru aftur farnir að einblína á íslensku fjármálainnrásina og hvaða áhrif hún muni hafa á danskt og íslenskt efnahagslíf. Fjármálablaðið Børsen birtir reglulega greinar um íslensk uppkaup og er þar einatt rætt um það hversu skeytingarlausir íslenskir fjárfestar og bankar virðast vera um möguleg vankvæði við þessa miklu útrás íslenskra fyrirtækja.
Í síðasta tölublaði eyddu skríbentar Børsen miklu púðri í að útskýra hvernig hinar frægu "Group" samsteypur eru uppbyggðar - og var þar engu orði eytt í Haukurinn Group, Hauknum til mikillar mæðu. Það sem einkennir þessa útrás og miklu fjárfestingar, og það sem stingur mest í augu danskra fjármálaspekúlanta, er hversu mikinn þátt íslensku bankarnir (einkum Íslandsbanki, Landsbankinn og Kaupþing) eiga í öllu saman. Haukurinn er að vissu leyti sammála, þ.e. það gæti skapað vandamál síðar meir að leggja öll sín egg í eina og sömu körfuna. Haukurinn sér fyrir sér spilaborg sem stendur á þremur undirstöðum, og því þeim mun viðkvæmari gagnvart utanaðkomandi vankvæðum. Enn, líkt og Haukurinn ritaði síðast, þá flýgur býflugan þó að hún eigi ekki að geta það - en menn muna samt ennþá eftir internetbólunni í lok síðustu aldar.
Jæja, þetta var frekar þurrt blogg. Verði þeim að góðu sem nutu.
Haukurinn hefur talað!
P.s. Haukurinn klukkar ekki, stelpur klukka, lúftgítar! Heyrirðu það kerla!