þriðjudagur, nóvember 12, 2002

Brostu þegar vel gengur.....!

Öskur út til minna heimadrengja!

Haukurinn heilsar á þessum bjarta, en kalda, vetrardegi. Engin þreyta þjáir nú Haukinn, því ólíkt öðrum dögum þá er hann í góðum fíling og þónokkuð bjartsýnn bara. Haukurinn er sérstaklega glaður vegna þess að kónan hans er komin með vinnu og því hætt að hanga yfir honum heima allan liðlangan daginn. Haukurinn hefur ákveðið að hafa samband við framleiðendur Survivor og Temptation Island(?) og kanna áhuga þeirra á nýjum raunveruleikaþætti fyrir sambúðarfólk. Nefnilega þátt þar sem pör eru látin hanga saman allan daginn - 24-7 kallast það víst hjá þotuliðinu - og taka það helvíti upp á myndband. Haukurinn hefur komist að því að öllum manneskjum er hollt að fá að vera í friði a.m.k. einn klukkutíma á dag og er það byggt á hans eigin rannsóknum. (Bara til þess að hafa það á hreinu þá er hér engan veginn um nein illindi að ræða heldur aðeins létt nöldur....)

Haukurinn rakst á það í Mogganum í morgun að górillan Koko ætlar að gefa út geisladisk með frumsamdri tónlist. Apakötturinn Koko semur víst textana sjálf en lætur öðrum tvífætlingum að flytja lögin, en hún hefur þó yfirumsjón með útsetningum laganna. Þó svo mörgum megi koma það á óvart þá er það bandarísk stofnun sem stendur að baki þessari hljóðnauðgun og mun diskurinn líklegast fara á markað fyrir jólin. Eitt er víst, Koko er allavegna ekki eini apinn í tónlistarbransanum.

Rímnasamsuðarinn Emm-og-emm eða Emm-í-emm hefur víst frumsýnt sína fyrstu kvikmynd, 8 mílur, sem er lauslega byggð á ævi hans í gettóinu. Situr kvikmyndin sú reyndar í toppsæti yfir tekjuhæstu kvikmyndir síðustu helgar og eru vonir bundnar til þess að hagnaðurinn aukist þegar á líður. Haukurinn er tilbúinn að samþykkja það að Emm-í-emm hefur gott tak á þeirri iðju sinni að splæsa saman orðum í harðbeittar rímur og eru þær að innihaldi margar hverjar þónokkuð kjarnyrtar. En Hauknum er spurn hvað komi næst? Emm-í-emm, Brittney Spírs, Jeyló og María Karey hafa það öll sameiginlegt að vera vinsælir tónlistarmenn sem reynt hafa fyrir sér í kvikmyndum (Jeyló þó með bestum árangri því að hún byrjaði þar....) en það verður að viðurkennast að ekki hafa þau haft árangur sem erfiði. Hauknum gengur erfiðlega að gera sér í hugalund hverjar aðrar tónlistarstjörnur gætu átt eftir að reyna fyrir sér á þessum vettvangi (og þá telur hann ekki með hina fjölmörgu rappara sem leikið hafa reiða svarta menn með byssur í hendi í ótal kvikmyndum). Hann á t.d. erfitt með að sjá fyrir sér Robbí Vilhjálms í hlutverki njósnarans góðkunna 007/James Bond eða James Brown í nútímauppfærslu á Sheikspír!

Haukurinn varð vitni að hreint ótrúlegum hlut um daginn. Þann var mál með vexti að Haukurinn var úti að rúnta með kunningja sínum, Diddanum, þegar honum varð litið til hliðar á rauðu ljósi og inn í næsta bil. Þar blasti við þriggja manna fjölskylda, þar sem faðirinn var of upptekinn að tala í GSM-síma sinn til þess að geta keyrt og móðirin keðjureykti ofan í u.þ.b. 5 ára gamla dóttur sína sem stóð laus (þ.e.í engu bílbelti) á milli framsæta bíls þeirra hjóna! Hauknum var svo um að hann íhugaði jafnvel að hringja í lögregluna - en þar sannaðist hið fornkveðna úr kvikmyndinni Boy's in tha hood "Any fool with a dick can have a kid, but it takes a man to be a father!" eða á íslensku "Hvaða flón sem er sem hefur lók getur getið barn, en það krefst karlmennsku að vera faðir!"

Haukurinn er einnig þessa dagana að gera við sína ónýtu bifreið. Það gengur heldur seint því nýja vélin sem Haukurinn keypti er víst ekki alveg eins og sú gamla og því halda leikar áfram..........

Haukurinn hefur talað!