föstudagur, september 15, 2006

Ég er löggiltur öryrki,hlusta á HLH og Brimkló
Ég er löggiltur hálfviti,læt hafa mig að fífli,styð markaðinn
Egó, Rækjureggea
Haukurinn er skrópagemlingur. Dagurinn átti að byrja með eðal fyrirlestri um socialkonstruktivisma klukkan átta fimmtán, en Haukurinn var þreyttur og latur. Haukurinn ákvað að sitja frekar heima við og lesa lektíur. Þrátt fyrir visst samviskubit er Haukurinn eigi illa haldinn og mun eiga láta bugast af téðu biti - þó er slíkt hið sama ekki hægt að segja um öll hans mörgu mýflugnabit.
Haukurinn er á barmi taugaáfalls sökum mýbita. Hvers vegna Haukurinn má ekki sitja í friði í kvöldroðanum í 15 til 20 gráðu hita úti í garði með einn öl (eða tvo) er honum með öllu óskiljanlegt. Mýin virðast dragast að honum líkt og....hömm....mý að mykjuskán.
Samferðamaður Hauksins í þessari síbreytilegu ferð sem við köllum lífið, tjáði honum að mýin sæktu meira í blóð sem inniheldur mikið magn af testósteróni. Samkvæmt þeim rökum er Haukurinn við það að sprengja skalann hans Hjalta Úrsusar. Haukurinn er karlmenni.
Bardaíþróttaþreyfingar Hauksins hafa einnig hafist á ný, og því er Haukurinn haldinn ýmiskonar kvillum, eymslum og sperrum. Þetta þýðir að þegar öllu er á botninn hvolft þá er Haukurinn í einstöku lamasessi þessa dagana - líkt og fleiri.
En eigi þýðir að gráta Björn bónda heldur safna liði - skilið í þeirri merkingu að Haukurinn ætlar að leggja minnstu fiðlu í heimi á hilluna og snúa sér aftur að því að njóta lífsins.
Haukurinn hefur talað!
P.s. Gleðilegan flöskudag - með kærum mjaðarkveðjum frá hinu danska smáríki.