föstudagur, nóvember 07, 2003

Pabbi á spánýjan poka!

Haukurinn fékk létt fyrir hjartað áðan. Netið neitaði að gefa Hauknum aðgang. Ótrúlegt alveg, því að í þetta skipti þurfti Haukurinn virkilega að nýta alnetið til þess að sanka að sér heimildum fyrir verkefnið stóra. Hjúkket!

Haukurinn gerðist miskunnsami samverjinn á miðvikudag og bauð Pawel hinum pólska í mat. Strákgreyið er rétt nýskriðið yfir tvítugt og á lítinn sem engan pening, þannig að Haukurinn sá aumur á honum. Haukurinn eldaði upp storm í eldhúsinu (eins og enskumælandi fólk segir) og bauð upp á vel útilátinn pottrétt. Haukurinn komst fljótlega að því að hinn pólski hefur lítið þol fyrir ölinu góða, því að eftir aðeins tvær flöskur af öli var drengurinn orðinn draghálfur. Hann braust út úr skelinni sinni og talaði heil ósköp.

Að matnum loknum var haldið á International kvöld sem er haldið á miðvikudögum fyrir útlenda nemendur við Álaborgar háskóla. Þegar þangað var komið hittu Haukurinn og pólverjinn fyrir Hjörleif og Eyjólf, eða Ölleif og Bjórólf eins og þeir kalla sig þegar ölið er teigað. Úr varð hin skemmtilegasta kvöldstund, þar sem allir skemmtu sér konunglega. Pawel hinn pólski kjaftaði sífellt meira eftir því sem leið á kvöldið og höfðu allir gaman af.

Í dag er akkúrat ein vika þar til faðir Hauksins heldur upp á sitt fimmtugasta aldursár. Haukurinn væri glaður og hýr ef hann sæi fram á að komast heim til að fagna þessum stóra degi, en í augnablikinu er þörf á kraftaverki.

Haukinn langar heim....!

Haukurinn hefur talað!